Enski boltinn

Segir að það sé erfiðast að verja frá Gylfa

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gylfi og Jordan Pickford komu báðir til Everton sumarið 2017.
Gylfi og Jordan Pickford komu báðir til Everton sumarið 2017. vísir/getty

Jordan Pickford, markvörður Everton og enska landsliðsins, segir erfiðast að verja skot frá Gylfa Þór Sigurðssyni á æfingum hjá Bítlaborgarliðinu.

Pickford svaraði ýmsum skemmtilegum spurningum stuðningsmanna Everton í herferðinni Blue Family. Markmiðið með henni er að hjálpa og vera í sambandi við þá sem eru einangraðir og í áhættuhópi vegna kórónuveirufaraldursins.

Pickford fékk það verkefni að svara spurningum stuðningsmanna Everton. Hann var m.a. spurður að því hverjum væri erfiðast að verja frá á æfingum.

„Ég verð að segja að Gylfi. Hvert hann skýtur og tæknin sem hann býr yfir, það er svo erfitt að eiga við það,“ svaraði Pickford.

Gylfi er afar sparkviss og með betri spyrnumönnum í bransanum. Hann hefur skorað 22 mörk í 103 leikjum fyrir Everton í öllum keppnum.

Everton var í 12. sæti ensku úrvalsdeildarinnar þegar keppni var hætt vegna kórónuveirufaraldursins. Liðið átti eftir að leika níu deildarleiki. Þá var Everton úr leik í ensku bikarkeppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×