Fyrrum landsliðsmaðurinn í knattspyrnu, Lárus Orri Sigurðsson, virðist vera orðinn þreyttur á því að hlusta á framkvæmdastjóra félaganna og segir þeim að halda sig fjarri sviðsljósinu.
Mikið hefur verið rætt og ritað um fjárhag íslenskra liða að undanförnu vegna kóronuveirunnar sem nú ríður yfir en þar af leiðandi hefur verið mikið rætt við framkvæmdastjóra félaganna um hvernig staðan er á þeim bænum.
Lárus Orri kallar ekki allt ömmu sína og setti inn færslu á Twitter í gær þar sem hann sagðist vera orðinn þreyttur á því að hlusta á framkvæmdastjóranna endalaust í fjölmiðlum. Hann sagði þeim að halda sig fjarri sviðsljósinu og þeir ættu bara að sinna sínu starfi.
Að hlusta endalaust á framkvæmdastjóra félagana í fjölmiðlum þessa dagana er eins og þegar dómarinn verður aðalstjarnan í leik. Boring. Stay out of the limelight. Do your job and keep a low profile. Hlakka til að heyra aftur í þjálfurum og leikmönnum og þeirra skoðun
— Lárus Sigurðsson (@larussig) April 27, 2020
Hann líkti þessu við eins og þegar dómarinn verður aðalstjarnan í leiknum en hann sagðist einnig hlakka til að heyra aftur í þjálfurum og leikmönnum liðanna.
Lárus lék 42 leiki með íslenska landsliðinu auk þess sem hann spilaði fyrir Þór, Stoke, WBA og ÍA. Hann þjálfaði síðast Þór en hætti eftir sumarið 2018.