Erlent

Tölvubilun setur flug í Evrópu úr skorðum

ingvar haraldsson skrifar
Lokun loftrýmisins hafði áhrif á flugferðir þúsunda ferðalanga á Heathorw og fleiri flugvöllum í gær.
Lokun loftrýmisins hafði áhrif á flugferðir þúsunda ferðalanga á Heathorw og fleiri flugvöllum í gær. fréttablaðið/ap
Meiriháttar truflun varð á flugsamgögnum á Bretlandseyjum og víðar í Evrópu eftir að loftrýminu yfir London í var lokað í 35 mínútur síðdegis í gær.

Bilun í tölvukerfi flugstjórnarstöðvarinnar í Swanwick, sem stýrir flugumferð yfir London, olli því að loka þurfti lofthelginni.

Búið var að fella niður 66 flug frá Heathrow flugvellinum í London þegar Fréttablaðið fór í prentun í gærkvöldi. Búist var við því að fleiri flug yrðu felld niður eftir því sem leið kvöldið. Þá urðu tafir á hundruðum flugferða í gær vegna lokunarinnar á flugvöllum um alla Evrópu. Flugum Wow air og Icelandair til London síðdegis í gær seinkaði um tvær klukkustundir og kvöldflugi flugfélaganna aftur til Keflavíkur seinkaði um klukkustund. Talið er að tafir á flugumferð geti áfram orðið í dag, laugardag, vegna lokunar lofthelginnar í gær.

Martin Rolfe, talsmaður NATS, félagsins sem rekur flugstjórnarstöðina í Swanwick sagði að orsök bilanarinnar væri ókunn en rannsókn stæði yfir. Rolfe gat þó sagt að búið væri að útiloka árás hakkara á tölvukerfið.



Samgönguráðherra segir truflanirnar óásættanlegar


Patrick McLoughlin, samgönguráðherra Bretlands, var afar ósáttur við stöðuna. „Truflanirnar af þessari stærðargráðu eru óásættanlegar og ég hef farið fram við NATS að atvikið sem átti sér stað í kvöld til hlítar,“ hefur The Guardian eftir McLoughlin.

Bilanir í flugstjórnarstöðinni Swanwick hafa verið tíðar síðan stjórnstöðin opnaði árið 2002, sex árum á eftir áætlun. Kostnaður við byggingu stjórnstöðvarinnar fór tvöfalt fram úr kostnaðaráætlun. Ár er síðan að bilun kom upp í símkerfi stjórnarstöðvarinnar sem olli meiriháttar truflun á flugi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×