Erlent

Frans páfi hyggst ekki hitta Dalai Lama í Róm

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frans páfi.
Frans páfi. Vísir/Getty
Frans páfi hyggst ekki hitta Dalai Lama sem nú er í heimsókn í Róm en hann hafði óskað eftir fundi með páfanum. Páfinn reynir nú að bæta samskipti Vatíkansins við Kína og vill því ekki hitta andlegan leiðtoga Tíbeta.

Talsmaður Vatíkansins sagði að þrátt fyrir að páfa þætti mikið til Dalai Lama koma þá gæti hann ekki átt fund með honum af augljósum ástæðum. Fundur með Dalai Lama geti haft slæm áhrif á tilraunir páfa til að bæta samband Vatíkansins og Kína.

Haft er eftir talsmanni Dalai Lama að hann sé vonsvikinn yfir því að geta ekki hitt páfa á meðan hann er í Róm en vill þó ekki valda trúarleiðtoganum neinum óþægindum.

Kína lítur á Dalai Lama sem aðskilnaðarsinna og hefur í gegnum tíðina brugðist illa við þegar erlendir þjóðhöfðingjar hafa tekið á móti honum.

Dalai Lama leitast nú við að finna einhvern milliveg í samskiptum Kína og Tíbet og fer fram á að Tíbetar fái sjálfsstjórn en ekki sjálfstæði.

Hann flúði til Indlands árið 1959 eftir að Kínverjar börðu af hörku niður uppreisn Tíbeta. Dalai Lama fékk friðarverðlaun Nóbels árið 1989.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×