Ferðalag norska ungstirnisins Martins Ødegaard um Evrópu heldur áfram, en leikmaðurinn er nú staddur við æfingar á þýska stórliðinu Bayern München.
Ødegaard, sem verður 16 ára á miðvikudaginn, sló í gegn með Stromsgodset á síðustu leiktíð og hefur síðan þá verið eftirsóttur af stórliðum í Evrópu.
Í síðustu viku æfði Ødegaard með Liverpool, en hann einnig æfa með Ajax á næstu vikum. Fleiri lið eru á höttunum eftir honum, þ.á.m. Barcelona, Manchester United, Celtic, Borussia Dortmund og Real Madrid.
Ødegaard lék sinn fyrsta landsleik fyrir Noreg gegn Sameinuðu arabísku furstadæmunum í lok ágúst og varð þar með yngsti leikmaðurinn til að spila fyrir norska landsliðið.
Hann er einnig yngsti leikmaðurinn sem hefur spilað í undankeppni EM, en Ødegaard sló met Sigurðar Jónssonar þegar hann kom inn á sem varamaður í leik gegn Búlgaríu í október.
