Fótbolti

Mourinho valdi Ronaldo þann besta

Anton Ingi Leifsson skrifar
Jose Mourinho hefur átt magnaðan feril sem stjóri en hann segir brasilíska Ronaldo þann besta í sögunni.
Jose Mourinho hefur átt magnaðan feril sem stjóri en hann segir brasilíska Ronaldo þann besta í sögunni. vísir/getty

Jose Mourinho, stjóri Tottenham, segir að hvorki Cristiano Ronaldo né Lionel Messi séu þeir bestu í sögunni. Það sé hinn brasilíski Ronaldo.

Ronaldo og Mourinho unnu saman hjá Barcelona er ungur Ronaldo var þá að brjótast inn í aðalliðið þar en Mourinho var aðstoðarmaður Bobby Robson.

„Ronaldo,“ sagði Mourinho í samtali við LiveScore um hver væri sá besti í sögunni. „Cristiano Ronaldo og Messi hafa báðir átt lengri feril og verið á toppnum í fimmtán ár en ef við erum að tala um hrein gæði og hæfileika þá er enginn framar en Ronaldo.“

„Þegar hann var hjá Barcelona undir stjórn Bobby Robson þá fattaði ég að þetta væri besti leikmaður sem ég hafði séð stíga á völlinn. Meiðsli drápu ferilinn sem hefði getað verið enn betri en þessi gæði nítján ára drengs voru ótrúleg.“

Brassinn varð tvisvar heimsmeistari með Brasilíu en hann skoraði 414 mörk á ferlinum. Hann lék með Barcelona, Real Madrid og einnig grönnunm á Ítalíu; AC Milan og Inter.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×