Íslenski landsliðsframherjinn Jón Daði Böðvarsson opnaði í kvöld markareikninginn sinn með liði Kaiserslautern í þýsku b-deildinni í fótbolta.
Kaiserslautern varð engu að síður að sætta sig við 2-1 tap á móti Nürnberg en sigurmarkið kom tveimur mínútum fyrir leikslok.
Jón Daði Böðvarsson skoraði markið sitt á 22. mínútu og jafnaði þá metin í 1-1. Patrick Erras hafði komið Nürnberg í 1-0 þremur mínútum fyrr. Zoltán Stieber skoraði sigurmark Nürnberg á 88. mínútu.
Jón Daði kom til Kaiserslautern um áramótin og hafði ekki náð að skora í fimm fyrstu leikjum liðsins eftir vetrarfríið.
Það gengur lítið hjá Kaiserslautern þessa dagana en þetta var þriðji tapleikur liðsins í röð og liðið hefur aðeins náð í 5 stig af 18 mögulegum síðan að Jón Daði fór að spila með liðinu.
Fyrir vikið situr Kaiserslautern í tíunda sæti deildarinnar og er nú sextán stigum frá þriðja sætinu sem gefur sæti í umspili um sæti í þýsku úrvalsdeildinni.
