Fótbolti

Einn harðasti Stjörnumaðurinn vonast til þess að safna rúmri milljón fyrir félagið eftir maraþonhlaup

Anton Ingi Leifsson skrifar
Almar Guðmundsson eftir hlaupið í dag.
Almar Guðmundsson eftir hlaupið í dag.

Almar Guðmundsson, fyrrum formaður knattspyrnudeildar Stjörnunnar, gerði sér lítið fyrir og hljóp heilt maraþon í dag til styrktar knattspyrnudeild félagsins. Söfnunin er enn í gangi og miðar vel.

Almar var lengi í stjórn Stjörnunnar en hann átti um helgina að hlaupa maraþon í London. Vegna kórónuveirunnar var það blásið af og því ákvað Stjörnumaðurinn að hlaupa maraþon í Garðabænum og safna áheitum.

„Ég hafði átt að vera hlaupa maraþon í London á morgun svo ég hugsaði með mér að víst ég væri í sæmilegu formi að slá þetta saman og skoraði á vini mína, Stjörnumenn og Garðbæinga að setja áheit á mig. Það hefur gengið ljómandi vel og ég er hrikalega stoltur. Maður er það líka þegar maður er búinn að klára þessi ósköp,“ sagði Almar.

„Ég sagði við vini mína að ég vildi fá 10 þúsund kall á kílómetrann sem eru 422 þúsund krónur. Við erum komin í rúmlega 600 þúsund núna og mér sýnist þetta vera að fara á smá flug. Eigum við ekki að þrefalda það og fara í 1200-1300 þúsund krónur?“

Eins og áður segir var Almar formaður félagsins, til að mynda þegar liðið varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn í karlaflokki árið 2014, en hann segir að þetta sé kært á erfiðum tímum.

„Ég var formaður þar í mörg ár og þó ég segi sjálfur frá er ég einn harðasti Stjörnumaðurinn. Það er mér mjög kært að geta hjálpað félaginu mínu.“

Innslagið í heild sinni má sjá hér að neðan.

Klippa: Sportið í dag - Styrktarhlaup Almars
Hér má sjá tíma Almars.vísir/skjáskot



Fleiri fréttir

Sjá meira


×