Fótbolti

Kanna tengsl kórónuveirunnar á Englandi og leiks Liverpool og Atletico Madrid

Anton Ingi Leifsson skrifar
Úr umræddum leik á Anfield í síðasta mánuði.
Úr umræddum leik á Anfield í síðasta mánuði. vísir/getty

Sett hefur verið af stað rannsókn á Englandi þar sem kannað er hvort að leikur Liverpool og Atletico Madrid í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar hafi haft áhrif á útbreiðslu kórónuveirunnar.

Yfir 52 þúsund áhorfendur voru á leiknum, þar á meðal þrjú þúsund stuðningsmenn frá Spáni, en leikurinn fór fram þann 11. mars. Tveimur dögum síðar var allur fótbolti á Englandi settur á ís.

Steve Rotheram, borgarstjóri Liverpool, hefur kallað eftir því að rannsakað verði hvort að leikurinn hafi yfirhöfuð átt að fara fram og fræðimenn innan háskóla Bítlaborgarinnar og John Moores háskólanum hafa tekið að sér verkefnið.

Ekki hefur verið gefið út hvenær hópurinn mun skila af sér niðurstöðum en það er ljóst að það verður fróðlegt að sjá hvað kemur út úr þessu. Margir gagnrýndu yfirvöld fótboltans að leikurinn hafi farið fram en veiran var þá byrjuð að dreifa úr sér víðast hvar um heiminn.

Leikurinn var síðasti leikurinn á enskri grundu því allt var sett á ís tveimur dögum síðar. Hingað til hafa ekki nein einkenni eða veikindi verið rakin til leiksins. Átján þúsund manns hafa látið lífið vegna kórónuveirunnar á Englandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×