Fótbolti

Kristófer mátti ekki labba á flugvöllinn og rétt svo komst til Íslands

Sindri Sverrisson skrifar
Kjartan Atli Kjartansson sló á þráðinn til Kristófers Inga Kristinssonar.
Kjartan Atli Kjartansson sló á þráðinn til Kristófers Inga Kristinssonar. MYND/STÖÐ 2 SPORT

Knattspyrnumaðurinn ungi Kristófer Ingi Kristinsson komst með skrautlegum hætti heim til Íslands frá Frakklandi þar sem hann hefur búið í vetur og spilað með liði Grenoble í næstefstu deild.

Kristófer var kominn til Parísar þar sem hann dvaldi hjá frændsystkinum sínum áður en hann ákvað að halda til Íslands í síðustu viku vegna kórónuveirufaraldursins. Hann lýsti heimferðinni í Sportinu í dag á Stöð 2 Sport:

„Ég átti flug á miðvikudegi frá París en það var að ég held öllu flugi frá Evrópu aflýst nema frá London og Osló. Síðan átti ég flug á föstudeginum til London og átti þá að gista í London, en það var rosalega mikið vesen að fá taxa og svona svo ég ætlaði að labba á flugvöllinn. En það var búið að loka gönguleiðinni að flugvellinum svo ég komst ekkert þangað. Það vildi enginn leigubíll ná í mig, svo ég var næstum því búinn að missa af fluginu,“ sagði Kristófer, sem slapp með skrekkinn:

„Ég þurfti að hlaupa á einhverja strætóstöð og strætóinn samþykkti að skutla mér. Þegar ég kom að hliðinu stóð á skilti að það væri að loka. Ég þurfti að hlaupa alla leið yfir og rétt náði þessu,“ sagði Kristófer sem er nú kominn heim og er í sóttkví.

Klippa: Sportið í dag - Kristófer um ferðasögu sína heim til Íslands

Sportið í kvöld er á dagskrá Stöðvar 2 Sports á þriðjudags-, miðvikudags- og fimmtudagskvöldum klukkan 20.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×