Enski boltinn

Woodward: Verður ekki venjulegur félagaskiptagluggi

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Ed Woodward.
Ed Woodward. vísir/getty

Ed Woodward, stjórnarformaður Manchester United, varar stuðningsmenn félagsins við því að næsti félagaskiptagluggi verði erfiður fyrir öll félög í kjölfar kórónaveirufaraldursins.

Man Utd stendur afar vel fjárhagslega og er talið að félagið muni standa nokkuð vel að vígi þegar fótboltinn fer aftur að rúlla, ólíkt mörgum öðrum félögum. Hefur umræðan verið á þá leið að Man Utd muni láta mikið til sín taka á leikmannamarkaðnum þegar opnað verður fyrir félagaskipti, hvenær sem það svo verður.

Woodward segir þó ljóst að það verði erfitt fyrir alla að fóta sig á markaðnum í sumar, líka Man Utd þrátt fyrir góða fjárhagsstöðu.

„Enginn ætti að vera í vafa um hvers lags áskoranir bíða allra sem koma að fótboltanum og það skildi enginn halda að félagaskiptamarkaðurinn í sumar verði eins og vanalega (e. business as usual). Það á við um okkur eins og öll önnur félög,“ segir Woodward.

„Eins og alltaf er árangur liðsins okkar forgangsverkefni en við þurfum að horfa til þess hvaða áhrif þetta ástand hefur á fótboltaiðnaðinn í heild. Til að mynda tímasetningar á félagaskiptagluggum og heildræna mynd af fjárhagnum áður en við getum talað um að hlutirnir séu komnir í eðlilegt horf.“

Manchester United sat í 5.sæti ensku úrvalsdeildarinnar þegar keppni var slegið á frest en það sæti gæti fært liðinu keppnisrétt í Meistaradeild Evrópu, fari svo að Man City verði meinuð þátttaka í Evrópukeppnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×