Erlent

Sanders vill að forvalinu í Wisconsin verði frestað

Andri Eysteinsson skrifar
Sanders hvetur Wisconsin til að feta í fótspor 15 ríkja sem hafa frestað kosningunum.
Sanders hvetur Wisconsin til að feta í fótspor 15 ríkja sem hafa frestað kosningunum. Getty/Scott Eisen

Bernie Sanders, einn frambjóðanda í forvali Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum sem fara fram í nóvember næstkomandi, hefur kallað eftir því að kjörstjórn í Wisconsin fresti þeim hluta forkosninganna sem á að fara fram í ríkinu 7. apríl vegna smithættu.

„Fólk ætti ekki að þurfa að hætta lífi sínu til þess að fara á kjörstað. Því hafa 15 ríki samþykkt að fresta sínu forvali og við viljum hvetja Wisconsin til að feta í fótspor þeirra, sagði Sanders í yfirlýsingu.

Sanders er einn tveggja frambjóðenda sem eftir standa í Demókrataflokknum. Keppinautur Sanders er varaforsetinn fyrrverandi, Joe Biden. Gengi Biden hefur verið ívið betra en gengi Sanders og hefur hann tryggt sér 1224 kjörmenn gegn 924 kjörmönnum Sanders.

Wisconsin er tuttugasta fjölmennasta ríki Bandaríkjanna og hefur sveiflast töluvert á milli Repúblikana og Demókrata í forsetakosningum fortíðarinnar. Donald Trump hlaut alla tíu kjörmenn ríkisins í kosningunum 2016 eftir að hafa hlotið 47,22% atkvæða gegn 46,45% Hillary Clinton úr Demókrataflokknum. Frá 1988 til 2012 höfðu Demókratar þó hlotið kjörmenn ríkisins.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.