Fótbolti

Vill að ríkis­stjórnin leggi rúma átta milljarða ís­lenskra króna í knatt­spyrnu­hreyfinguna

Anton Ingi Leifsson skrifar
Terje Svendsen er hér fyrir miðju í miklu stuði.
Terje Svendsen er hér fyrir miðju í miklu stuði. vísir/getty

Terje Svendsen, forseti norska knattspyrnusambandsins, vill að ríkisstjórnin þar í landi hjálpi fótboltanum til muna og að knattspyrnusambandið fái 600 milljónir norskra króna í stuðning en sú upphæð jafngildir rúmlega átta milljörðum íslenskra króna.

Fótboltinn í Noregi átti að hefjast í mánuðinum en ekkert verður úr því vegna kórónuveirunnar og óvíst er hvenær boltinn fer að rúlla. Forsetinn hefur áhyggjur af því enda margir sem vinna við fótboltann þar í landi, bæði í fullu starfi sem og hlutastarfi.

„Það er mikilvægt að við komumst fljótt í gang með fótboltann. Íþróttir og fótbolti er mikilvægt fyrir marga. Þetta hefur áhrif á tvær milljónir manna í Noregi,“ sagði Svendsen á blaðamannafundi á Ullevaal-leikvanginum í gær.

Það verður enginn í fótbolti í Noregi spilaður fyrr en í fyrsta lagi 15. júní. Norska sambandið hefur fundað með almannavörnum þar í landi og hafa útskýrt sín sjónarmið en einhverjar sögusagnir hafa verið um að enginn fótbolti verði í Noregi árið 2020.

Svendsen segir að það valdi honum miklum áhyggjum sú umræða og segir að verði það niðurstaðan gæti fótboltabransinn þar í landi einfaldlega lagst niður. Margir myndu missa vinnuna og klúbbarnir margir hverju yrðu gjaldþrota.

„Því lengur sem þessi staða varir því meiri óvissa verður það um tölurnar en við þurfum þessar 600 milljónir til þess að geta haldið áfram með okkar starf,“ sagði Svendsen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×