Erlent

Fjáröflun Guilianis sögð ógeðsleg

Rudy Giuliani ásamt konu sinni Judith á tali við mann við minnigarathöfn á Ground Zero 11. september síðastliðinn.
Rudy Giuliani ásamt konu sinni Judith á tali við mann við minnigarathöfn á Ground Zero 11. september síðastliðinn. MYND/AFP

Rudy Giuliani, fyrrverandi borgarstjóri New York borgar, sem sækist eftir forsetaembætti Bandaríkjanna hefur verið gagnrýndur harkalega fyrir að misnota ímynd hryðjuverkaárásanna á tvíburaturnana til fjáröflunar. Stuðningsmaður hans býður almenningi að styðja Giuliani fyrir 9,11 dollara á mann.

Alþjóðasamtök slökkviliðsmanna sem hafa gagnrýnt borgarstjórann fyrrverandi og segja aðferðina misnotkun á ímynd og tákni árásanna árið 2001. Harold Schaitberger, formaður samtakanna, segir í viðtali við Sky að fjáröflunin sé vanvirðing við þá þúsundir borgara og 343 hugrökku slökkviliðsmenn sem létu lífið þegar tvíburaturnarnir hrundu.

Eitt af kosningaloforðum Giulianos er baráttan gegn hryðjuverkum.

Chris Dodd frambjóðandi á vegum demókrata kallaði fjáröflunina óforsvaranlega, óskammfeilna og ógeðslega.

Maria Cornella, talsmaður Giulianis, segir fjáröflunina án vitundar hans og nánustu samstarfsmanna við framboðið. Hún harmar að þessi aðferð hafi verið valin, en segir að um sé að ræða tvo sjálfboðaliða sem af eigin frumkvæði völdu þessa leið án vitundar kosningaskrifstofunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×