Erlent

Þjóðarleiðtogar smella af sjálfsmyndum á snjallsíma

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
mynd/Getty
Barack Obama Bandaríkjaforseti, David Cameron forsætisráðherra Bretlands og Helle Thorning-Schmidt, forsætisráðherra Danmerkur tóku sjálfsmynd (e.selfie) af sér saman á meðan á minningarathöfn Nelson Mandela stóð. Frá þessu er meðal annars sagt á Sky News.

Myndataka þjóðarleiðtoganna náðist á mynd. Þar sjást þeir Obama og Cameron halla sér upp að danska forsætisráðherranum og saman brosa þau framan í símamyndavélina.

Næst Obama situr eiginkona hans, Michelle Obama, en henni virðist ekki jafn skemmt og eiginmanni hennar.

Myndin af þjóðarleiðtogunum þremur hefur farið eins og eldur um sinu um internetið í dag. Margir hafa tjáð sig um myndatökuna og á Twitter má sjá að mörgum þykir hegðun leiðtoganna ekki við hæfi.

Eins og fram hefur komið á Vísi hafa sjálfsmyndir á Instagram og fleiri samfélagsmiðlum lengi veirð vinsælar. Undanfarið hafa þær þó orðið óvenjulegri og nú er jafnvel orðið vinsælt að taka jarðarfararsjálfsmyndir, þar sem fólk myndar sig í jarðarförum ættingjum og vina.

Orðabækur Oxford hafa tilnefnt orðið „Selfie“ eða sjálfsmynd sem orð ársins í enska tungumálinu. Rannsóknir sýna fram á að á undanförnu ári hefur notkun orðsins í rituðu máli aukist um 17.000%.

Í orðabókinni frá Oxford er „selfie“ skilgreint sem ljósmynd sem einstaklingur tekur af sjálfum sér, yfirleitt með snjallsíma eða vefmyndavél og hún sett á samfélagsmiðla. Þeir miðlar munu hafa átt stóran þátt í vinsældum sjálfsmynda og aukinnar notkunar orðsins.

Obama og Thorning-Schmidt slá á létta strengi í minningarathöfn Mandela.mynd/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×