Fótbolti

Guð­jón: Rúnar senni­lega einn hæfi­leika­ríkasti og jafn­besti fót­bolta­maður sem Ís­land hefur átt

Anton Ingi Leifsson skrifar
Guðjón Þórðarson hrósaði Rúnari Kristinssyni mikið í þætti gærkvöldsins.
Guðjón Þórðarson hrósaði Rúnari Kristinssyni mikið í þætti gærkvöldsins. vísir/anton/samsett

Guðjón Þórðarson fékk það verðuga verkefni í Sportinu í kvöld að velja tvö úrvalslið; eitt draumalið sem hann þjálfaði hjá landsliðinu og eitt með þeim leikmönnum sem hann þjálfaði hjá íslenskum félagsliðum.

Það kom fáum á óvart að í báðum liðum Guðjóns var Rúnar Kristinsson. KR-ingurinn spilaði 139 landsleiki en Rúnar lék einnig undir stjórn Guðjóns hjá KR.

„Rúnar var hjá mér eitt ár í KR. Ég var í leikmannavandræðum í úrslitaleiknum og ég þurfti að spila honum sem framherja í úrslitaleiknum. Það var alveg sama hvað þú baðst hann um, hann reyndi að leysa það eins vel og kostur var,“ sagði Guðjón.

„Rúnar er sennilega einn hæfileikaríkasti og jafnbesti fótboltamaður sem Ísland hefur átt. Hann spilaði feikna vel bæði í Noregi og svo í Belgíu. Fyrst og fremst spilaði hann geysilega flottan feril með landsliðinu. Jafnlyndur, góðlyndur og geðgóður að eðlislagi. Feikilega útsjónarsamur fótboltamaður.“

Klippa: Sportið í kvöld - Guðjón um Rúnar

„Það var sem var með Rúnar var að það var aldrei hávaði eða læti í kringum hann. Hann reyndi að gera það sem hann var beðinn um að gera og gerði það vel. Það var aldrei neitt húff og púff í Rúnari. Hann æfði vel og hann lagði sig fram. Einlægur og góður karakter.“

„Rúnar er einn af þessum karakterum sem er jafnlyndur og mjög yfirvegaður. Hann lætur ekki slá sig svo glatt útaf laginu. Hann var slíkur á vellinum og hann var vel viljaður og hjálplegur. Hann gerði menninga í kringum sig að betri mönnum. Það er ein stórkostlegasti hæfileiki leikmanns að geta gert aðra betri. Rúnar hafði þann eiginleika og nýtir það sem þjálfari,“ sagði Guðjón.

Sportið í kvöld er á dagskrá Stöðvar 2 Sports á þriðjudags-, miðvikudags- og fimmtudagskvöldum klukkan 20.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.