Innlent

Fjögurra mánaða drengur á Akureyri greindist með COVID-19

Vésteinn Örn Pétursson og Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifa
Drengurinn var lagður inn á Sjúkrahúsið á Akureyri.
Drengurinn var lagður inn á Sjúkrahúsið á Akureyri. Vísir/Vilhelm

Fjögurra mánaða gamall drengur greindist í síðustu viku með kórónuveiruna sem valdið getur sjúkdómnum COVID-19. Frá þessu greinir RÚV.

Drengurinn var lagður inn á sjúkrahúsið á Akureyri eftir slæmt hóstakast. Móðir drengsins hefur verið með hann á brjósti en hefur sjálf ekki smitast af veirunni.

Guðrún Ólöf Björnsdóttir, móðir drengsins, segir í samtali við RÚV að ekki liggi fyrir hvernig sonur hennar hafi smitast. Eldri bróðir drengsins, þriggja ára, hafi veikst 6. mars og verið mikið veikur. Um viku síðar hafi sá yngri veikst. Ekki var uppi grunur um að drengirnir hefðu veikst af kórónuveirunni.

Veikindi yngri drengsins voru hins vegar nokkuð mikil og vörðu lengi. Guðrún hafi því ákveðið að láta prófa hann fyrir Inflúensu A og B og RS veiru, en öll sýnin komu út neikvæð. Þá var ákveðið að prófa drenginn fyrir kórónuveirunni, sem hann reyndist síðan smitaður af.

Móðirin ekki smituð

Þá segir Guðrún að of langt sé liðið frá veikindum eldri drengsins til þess að greina og ganga úr skugga um hvort hann hafi reynst smitaður af kórónuveirunni eða ekki.

Í gær var tekið sýni af Guðrúnu og reyndist það neikvætt fyrir kórónuveirunni. Drengurinn var útskrifaður af sjúkrahúsinu á Akureyri í dag og er að sögn móður sinnar allur að koma til. Hann er þó enn í einangrun. Fjölskylda hans er þá í sóttkví, en enginn meðlimur hennar hefur sýnt einkenni COVID-19.

Þrír starfsmenn Sjúkrahússins smitaðir

Þrír starfsmenn Sjúkrahússins á Akureyri greindust með kórónuveiruna síðastliðna tvo daga. Unnið er nú að því að rekja ferðir og smit starfsfólksins en ekki er vitað til þess að fólkið hafi smitast við störf á sjúkrahúsinu.

Þetta kom fram fyrr í kvöld á vef RÚV en ekki náðist í Sigurð E. Sigurðsson, framkvæmdastjóra Sjúkrahússins við vinnslu þessarar fréttar. Rúmlega tuttugu starfsmenn Sjúkrahússins á Akureyri eru nú í sóttkví og þrír eru í einangrun. Einn sjúklingur sem greindur hefur verið með veiruna liggur á Sjúkrahúsinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×