Fótbolti

Kane gæti yfirgefið Tottenham ef liðið stefnir ekki í rétta átt

Anton Ingi Leifsson skrifar
Harry Kane er markaskorari af guðs náð. Hann er fyrirliði Tottenham og enska landsliðsins.
Harry Kane er markaskorari af guðs náð. Hann er fyrirliði Tottenham og enska landsliðsins. vísir/getty

Harry Kane, fyrirliði Tottenham og enska landsliðsins, útilokar ekki að hann gæti yfirgefið félagið á næstum árum. Hann stefnir á að vinna titla og ef Tottenham stefnir ekki í rétta átt gæti hann farið frá félaginu.

Kane hefur verið í herbúðum Tottenham frá því að hann ellefu ára gamall og hefur leikið tæplega tvo hundruð leiki fyrir aðallið félagsins en hefur verið meiddur að undanförnu.

Hann segir, í viðtali við Jamie Redknapp á Instagram, fyrr í dag að hann gæti hugsað sér að skipta um lið en það sé ekki meitlað í stein.

„Þetta er einn af þeim hlutum þar sem þú getur ekki sagt já eða nei. Ég elska Tottenham og mun alltaf elska Tottenham. Ég hef alltaf sagt að ef við erum ekki að bæta okkur eða stefna í rétta átt þá mun ég ekki bara vera hérna áfram, bara til þess að vera hér,“ sagði Kane.

„Ég er metnaðarfullur leikmaður og ég vil bæta mig og verða betri. Ég vil verða topp, topp leikmaður. Þetta veltur allt á því hvernig liðið verður og hversu mikið það bætir sig sem lið. Svo það er ekki skrifað í skýin að ég verði hér að eilífu en þetta er samt sem áður ekki nei við þeirri spurningu.“

Tottenham komst meðal annars í úrslitaleik Meistaradeildarinnar á síðustu leiktíð en tapaði þar fyrir Liverpool.

„Við höfum verið að segja í nokkur ár núna að við erum með frábært lið en af einhverjum ástæðum þá hefur okkur ekki tekist að vinna titla og ef þú horfir á liðið utan frá þá er þetta lið sem á að geta það. Það er erfitt að taka því sem leikmaður.“

„Ég vil vinna í öllu sem ég tek mér fyrir hendur og þegar þú kemst svo nálægt því og nærð ekki markmiðum þínum er erfitt að standa upp aftur. Allt sem við getum gert er að gefa allt okkar, leggja allt í hvern einasta leik og vinna bikara en okkur hefur ekki tekist það hingað til.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.