Fótbolti

Fótboltamaður vaknaði eftir að hafa verið í dái í meira en tvö ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Abdelhak Nouri liggur hér í grasinu eftir að hafa hnigið niður í æfingarleik Ajax og Werder Bremen í júlí 2017.
Abdelhak Nouri liggur hér í grasinu eftir að hafa hnigið niður í æfingarleik Ajax og Werder Bremen í júlí 2017. Getty/VI Images

Fyrrum leikmaður hollenska stórliðsins Ajax er kominn til meðvitundar á ný eftir að hafa verið í dái síðan 2017. Bróðir hans sagði fréttirnar í hollenskum sjónvarpsþætti.

Abdelhak Nouri hné niður í æfingarleik Ajax á móti Werder Bremen 8. júlí 2017 eftir að hafa fengið hjartaáfall. Hann var fluttur á sjúkrahús í þyrlu og ástand hans sagt stöðugt.

Fimm dögum síðar tilkynnti Ajax hins vegar að leikmaðurinn hafi orðið fyrir alvarlegum og varanlegum heilaskaða og að hann væri í dásvefni.

Síðan hefur ekkert frést opinberlega af afdrifum Abdelhak Nouri en nú fannst fjölskyldu hans vera komin tími til að segja frá stöðunni.

Bróðir Abdelhak Nouri sagði frá ástandi hans í sjónvarpsþættinum De Wereld Draait Door en þar var talað um þennan fyrrum leikmann Ajax.

Í þættinum voru faðir Nouri, bróðirinn Abderrahim og svo liðsfélagarnir Ajax liðinu frá 2017 þeir Frenkie de Jong, Donny van de Beek and Steven Bergwijn.

„Hann hefur ekki verið lengi heima en við hugsum um hann núna. Það gengur miklu betur eftir að hann kom heim heldur en á sjúkrahúsinu. Hann veit hver hann er og kannast betur við sig þegar hann kominn innan um fjölskylduna,“ sagði Abderrahim.

„Hann er ekki lengur í dái. Hann er vakandi. Hann sefur, hann hnerrar, hann borðar, hann ropar en hann fer þó ekki úr rúminu sínu. Hann er bara í rúminu og treystir mjög mikið á okkur. Hann hefur samskipti við okkur á góðu dögunum sínum, með augabrúnunum eða með því að brosa,“ sagði Abderrahim.

Abderrahim sagði að þeir horfi á fótbolta með honum og það virðist hafa góð áhrif á hann.

Abdelhak Nouri var hollenskur unglingalandsliðsmaður og var meðal annars valinn í úrvalsliðið á EM 19 ára sumarið 2016. Hann var líka valinn besti leikmaður hollensku b-deildarinnar tímabilið 2016-17 og var að reyna að vinna sér sæti í aðalliði Ajax þegar atvikið varð.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.