Innlent

Vill henda orðinu smitskömm

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Alma Möller, landlæknir.
Alma Möller, landlæknir. Vísir/Vilhelm

Alma Möller, landlæknir, hóf mál sitt á upplýsingafundi vegna kórónuveirunnar í dag á að ræða um orðið „smitskömm“ sem segja má að sé nýyrði sem orðið hefur til í kórónuveirufaraldrinum.

Lagði landlæknir til að við myndum henda því orði og sagði að enginn gæti gert að því að smitast eða smita aðra að því gefnu að viðkomandi hefði fylgt reglum um einangrun og sóttkví.

„Mér finnst að við ættum að hætta að agnúast út í aðra vegna þessa,“ sagði Alma.

Landsmenn ættu ekki að láta veiruna komast upp á milli sín. Þá þakkaði hún þeim fyrir sem eru nú í einangrun og sottkví og sagði þá vera að leggja sitt af mörkum fyrir samfélagið allt.

Fannst hún hafa brugðist samfélaginu

Undanfarið hafa þeir sem smitast hafa af veirunni sem veldur sjúkdómnum COVID-19 lýst því hvernig þeir hafi fundið fyrir smitskömm.

Þannig sagði Ólympíufarinn Þórey Edda Elísdóttir frá því í viðtali í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær hvernig hún fyndi fyrir smitskömm eftir að hafa farið sýkt út á meðal fólks án þess að vita hún væri smituð.

Þórey býr á Hvammstanga en hún og eiginmaður hennar eru smituð. Þau vita ekki hvernig og það kom þeim á óvart.

Þórey fann aðallega fyrir líkamlegri þreytu sem hún tengdi við útivist. Maðurinn hennar fékk hita í einn dag í byrjun síðustu viku en varð svo hressari. Hann fékk greiningu á föstudag eftir að sonur þeirra veiktist. Í millitíðinni fór Þórey á meðal fólks.

„Í rauninni fékk ég bara smá áfall, því að ég var búin að fara í búð og mér fannst ég hafa brugðist svolítið samfélaginu mínu. Ég hafi kannski mögulega ef ég væri nú með þetta líka smitað einhvern annan og ég upplifði smá smitskömm,“ sagði Þórey í samtali við fréttastofu sem vonar innilega að hún hafi ekki smitað neinn.

Klippa: Alma vill leggja orðinu smitskömm


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.