Fótbolti

„Mín stærsta eftirsjá var að neita Liverpool“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Bowyer liggur eftir á meðan leikmenn Middlesbrough fagna.
Bowyer liggur eftir á meðan leikmenn Middlesbrough fagna. vísir/getty

Lee Bowyer, fyrrum leikmaður Leeds og núverandi stjóri Charlton, var gestur Monday Night Football í gærkvöldi þar sem spekingarnir Gary Neville, Jamie Carragher og Roy Keane gerðu upp gamla leiki.

Boywer var einn besti leikmaður Leeds er liðið stóð sig sem best í ensku úrvalsdeildinni og var meðal annars orðaður við Liverpool árið 2002 þegar Gerard Houlier stýrði þeim rauðklæddu.

„Ég var mjög nálægt því að ganga í raðir Liverpool. Ég var hálfnaður í gegnum læknisskoðuna en mér fannst þetta ekki rétta skrefið á þeim tímapunkti,“ sagði Bowyer við Monday Night Football Retro í gær.

„Þetta er mín stærsta eftirsjá á ferlinum. Ef ég gæti breytt klukkunni þá hefði ég farið. Ég vissi að tími minn hjá Leeds væri senn á enda vegna nokkurra hluta sem gerðust á bakvið tjöldin.“

„Mér fannst það ekki rétt að fara enn lengra norður eftir að hafa verið frá fjölskyldu minni öll sex árin í Leeds en ég endaði í Newcastle svo það var ekki skynsamlegt! En á þessum tíma þá þótti mér það ekki rétt.“

Bowyer lék með Leeds frá 1996 til 2003 áður en hann fór til Newcastle og svo þaðan til West Ham. Hann er líklega þekktastur fyrir atvik sitt hjá Newcastle er hann og Kieron Dyer, samherji hans, slógust í miðjum leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×