Fótbolti

Einn mesti skemmtikraftur fótboltans fagnaði fertugsafmælinu í fangelsi

Sindri Sverrisson skrifar
Fjölmiðlaáhuginn sem Ronaldinho er sýndur í Paragvæ er litlu minni en á leikdegi á Camp Nou.
Fjölmiðlaáhuginn sem Ronaldinho er sýndur í Paragvæ er litlu minni en á leikdegi á Camp Nou. VÍSIR/EPA

Ein skærasta knattspyrnustjarna 21. aldarinnar, hinn brasilíski Ronaldinho, átti stórafmæli í dag en sennilega hefur lítið farið fyrir veisluhöldum þar sem hann er nú staddur.

Ronaldinho er nú í fangelsi í Paragvæ ásamt bróður sínum eftir að þeir komu til landsins á fölsuðum vegabréfum. Rannsókn málsins er ekki lokið en talið er að Ronaldinho gæti þurft að verja hálfu ári á bakvið lás og slá.

Fjölmiðlar og aðdáendur hafa rifjað upp nokkur af helstu tilþrifum kappans í gegnum tíðina í tilefni afmælisins.

Ronaldinho, sem heillaði knattspyrnuunnendur með tækni sinni og töktum í búningi Barcelona, AC Milan, PSG og brasilíska landsliðsins, hlaut Gullknöttinn (Ballon d‘Or) árið 2005. Þessa dagana fær hann hins vegar í mesta lagi að leika sér í futsal með samföngum sínum, en Ronaldinho kom að öllum mörkum síns liðs í 11-2 sigurleik í fangelsinu um daginn.

Ronaldinho og hinn 49 ára gamli Roberto bróðir hans voru leiddir burt í handjárnum á miðvikudag eftir að hafa haldið fram sakleysi sínu fyrir rétti. Lögmaður Ronaldinho sagði hann hafa verið „heimskan“ af því að hann hefði „ekki vitað að hann væri að fremja glæp því hann skildi ekki að hann hefði fengið fölsuð skilríki“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×