Innlent

Aðeins brýnustu skurðaðgerðirnar framkvæmdar

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Landspítalinn
Landspítalinn

Skurðaðgerðum hefur fækkað verulega á Landspítalanum vegna kórónuveirufaraldursins. Aðeins eru nú gerðar brýnustu aðgerðirnar og er viðbúið að biðlistar verði orðnir langir þegar starfsemi spítalans kemst aftur í eðlilegt horf.

Síðustu vikur hefur mikið mætt á starfsfólki Landspítalans enda hefur álagið aukist hratt. „Það eru allir, allir, á fullu við að vera þessi hornsteinn, varnarhlekkur ef svo má segja, síðasta vörnin, í baráttunni gegn þessari veiru,“ segir Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans.

Á spítalanum hefur nú sérstök COVID-göngudeild tekið til starfa. „Við erum með í kringum fimmtíu manns í þessari göngudeild núna sem að var ekki til fyrir tíu dögum,“ segir Páll.

Að jafnaði eru gerðar um eitt hundrað skurðaðgerðir hvern virkan dag á spítalanum. Þessa daga er aðeins hægt að gera um þrjátíu á dag. „Það sem við erum að sinna núna eru í rauninni engar valkvæðar aðgerðir nema þær sem að ekki geta beðið og það eru þá sérstaklega aðgerðir við krabbameinum, hjartaaðgerðir sem að ekki geta beðið og svo framvegis,“ segir Páll.

Gera má ráð fyrir að biðlistar eftir aðgerðunum, sem nú hafa verið slegnar af, lengist töluvert og verði orðnir langir þegar verður farið að gera þær aftur. Páll segir álagið koma til með að aukast frekar á spítalanum á næstunni vegna faraldursins. „Þetta mun þyngjast á næstu vikum en ég veit það að við komust í gegnum þetta og við ætlum að gera það og við bara gerum það sem þarf til þess að það takist,“ segir Páll.


Tengdar fréttir

Tólf á Landspítalanum með COVID-19

Tólf liggja á Landspítalanum með COVID-19 þar af einn á gjörgæslu. Forstjóri Landspítalans segir mikla vinnu hafa farið í það í vikunni að koma upp sérstakri COVID-19 göngudeild.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.