Innlent

Hertar aðgerðir vegna veirunnar kynntar í kvöld eða á morgun

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hjá almannavarnardeild ríkislögreglustjóra, Alma Möller landlæknir og Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, á fundinum í dag.
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hjá almannavarnardeild ríkislögreglustjóra, Alma Möller landlæknir og Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, á fundinum í dag. Vísir/Vilhelm

Hertar aðgerðir almannavarna vegna faraldurs kórónuveiru verða kynntar nú um helgina, í dag eða á morgun. Þetta kom fram í máli Víðis Reynissonar yfirlögregluþjóns hjá almannavörnum á upplýsingafundi vegna veirunnar í dag. Þá má gera ráð fyrir að þær taki gildi strax í vikunni sem framundan er.

Á meðal aðgerða sem nú er skoðað að beita er að minnka heildarfjölda þeirra sem koma mega saman. Núverandi samkomubann felur í sér að ekki mega fleiri en hundrað koma saman á hverjum tíma. Víðir sagði að þetta myndi koma til með að hafa mikil áhrif á til dæmis verslanir.

Þá er einnig verið að kanna hvort fyrirskipa eigi lokanir hjá fyrirtækjum sem halda úti starfsemi þar sem nánd er mikil. Þetta er starfsemi á borð við rakarastofur, nuddstofur og snyrtistofur, þar sem nánd er meiri en þeir tveir metrar sem miðað er við að fólk hafi á milli sín samkvæmt núverandi tilmælum sóttvarnalæknis.

Þá kemur einnig til greina að herða reglur um skólahald. Víðir tók þó sérstaklega fram að börn hafa ekki verið að smitast jafnmikið og fullorðnir, líkt og sjá megi af útbreiðslu veirunnar í Vestmannaeyjum. Þar séu fullt af börnum í sóttkví og jafnvel með einkenni en almennt ekki með veiruna. 

Í því samhengi vilja almannavarnir tryggja að heilbrigðisstarfsmenn fái forgang í skólana fyrir börn sín. Alltof oft hafi það komið fyrir að heilbrigðisstarfsfólk komist ekki í vinnuna vegna barna sinna sem ekki hafa komist í skólann.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.