Fótbolti

Alfreð valdi bestu leikmennina sem hann hefur spilað með hjá félagsliði

Anton Ingi Leifsson skrifar
Alfreð Finnbogason hefur átt flottan feril en nú leikur hann með Augsburg í Þýskalandi.
Alfreð Finnbogason hefur átt flottan feril en nú leikur hann með Augsburg í Þýskalandi. vísir/getty

Alfreð Finnbogason, landsliðsmaður, segir að Estabian Cambiasso og Carlos Vela séu bestu leikmenn sem hann hefur spilað með hjá félagsliðum í gegnum tíðina.

Alfreð var gestur Hjörvars Hafliðasonar í spjalli í hlaðvarpsþættinum Dr. Football í gær þar sem þeir fóru yfir víðan völl en Alfreð er nú í hálfgerði sóttkví þeir Augsburg má ekki æfa vegna kórónuveirunnar.

Undir lok þáttarins fengu hlustendur að spyrja Alfreð spurninga og einn þeirra spurði Alfreð hver væri besti leikmaður sem hann hefði spilað með í félagsliði í gegnum ferilinn.

„Það eru eiginlega tveir. Það er einn tæknilega og einn sem ég myndi alltaf velja í mitt lið því ég vildi vinna fótboltaleiki,“ sagði Alfreð og hélt áfram.

„Hæfileikaséð myndi ég velja Carlos Vela og leikmaður sem ég myndi alltaf vera með í liði mínu er Estebian Cambiasso. Rosalegur. Það er mikil ástríða í honum og það fór ekkert á milli mála.“

Alfreð lék með Cambiasso hjá Olympiakos en Carlos Vela hjá Real Sociedad. Allan þáttinn má hlusta á hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×