Innlent

„Það geta í raun allir veikst alvarlega“

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar

Íslendingum með kórónuveiruna fjölgar hratt en á síðustu tveimur dögum hafa vel á annað hundrað greinst með veiruna en smitum hefur fjölgað um þriðjung. Þá eru taldar miklar líkur að ástralskur ferðamaður um fertugt hafi látist af völdum COVID-19 hér á landi.

Annan daginn í röð fjölgar þeim sem greinst hafa með kórónuveiruna á Íslandi hratt en þrjú hundruð og þrjátíu hafa nú greinst með veiruna. Á sólarhring fjölgaði smituðum um áttatíu. „Á Landspítala eru nú sjö einstaklingar inniliggjandi vegna COVID. Þar af er einn á gjörgæslu. Sá einstaklingur er ekki í öndunarvél,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

Þá segir hann aukninguna mesta í þeim sýnum sem veirufræðideild Landspítalans hefur fengið. „Það er ekki að sjá mikla aukningu á jákvæðum sýnum hjá Decode en verulegt stökk á veirufræðideildinni sem er ákveðið merki um að veiran sé kannski að ná sér aðeins á flug,“ segir Þórólfur.

Í byrjun vikunnar lést ástralskur ferðamaður á sjúkrahúsinu á Húsavík. Eftir krufningu er talið er líklegt að hann sé fyrsta fórnarlamb COVID-19. „Í ljós kom lungnabólga þannig að það eru miklar líkur á því að maðurinn hafi látist af völdum Covid-19,“ segir Alma Möller landlæknir.

Flestir þeirra smituðu eru á milli fertugs og fimmtugs eða áttatíu og fjórir. „Við erum að heyra um að það geti verið yngra fólk að veikjast eins og á Ítalíu og auðvitað fylgjumst við með því og við höfum alltaf sagt að fólk á öllum aldri getur veikst. Það er samt sjaldgæft með að börn veikist alvarlega og kannski svona fólk undir þrítugu en það geta í raun allir veikst alvarlega en langmesta áhætta í eldri hópum,“ segir Alma.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×