Erlent

Fólk með öndunar- og lungnavandamál í mestri hættu af COVID-19

Kjartan Kjartansson skrifar
Rannsóknin er samantekt á nokkrum rannsókn sem voru gerðar á um 1.800 sjúklingum í Kína.
Rannsóknin er samantekt á nokkrum rannsókn sem voru gerðar á um 1.800 sjúklingum í Kína. Vísir/EPA

Þeir sem eru með undirliggjandi öndunar- eða lungnavandamál eru í sérstökum áhættuhópi um að fá alvarleg einkenni af COVID-19-sjúkdómnum samkvæmt nýrri rannsókn. Niðurstöðurnar, sem eru ekki ritrýndar, benda til þess að sjúkdómurinn leggist ekki jafnþungt á alla þá sem eru með undirliggjandi sjúkdóma.

Í mestri hættu er fólk sem þjáist af lungnaþembu (COPD), langvarandi lungnasjúkdómi sem lýsir sér með mæði og hósta. Mæði er ennfremur eina einkenni COVID-19 sem rannsóknin tengir merkjalega við alvarleg tilfelli þar sem leggja þarf sjúklinga inn á gjörgæsludeildir sjúkrahúsa, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar.

Grein um rannsóknina birtist á vefsíðunni MedRxiv. Í henni tóku vísindamenn við University College í Lundúnum saman niðurstöður sjö minni rannsókna í Kína á rúmlega 1.800 manns sem voru lagðir inn á sjúkrahús og voru greindir með COVID-19.

Sjúklingar sem voru andstuttir voru 3,7 líklegri en aðrir til þess að veikjast alvarlega og 6,6 sinnum líklegri til að vera lagðir inn á gjörgæslu. Þeir sem voru með lungnaþembu fyrir voru 6,4 sinnum líklegri en aðrir til að fá alvarleg einkenni og 17,8 sinnum líklegri til að þurfa á bráðadeild.

Niðurstöðurnar gætu hjálpað læknum og heilbrigðisstarfsfólki að forgangsraða sjúklingum sem eru í mestri hættu vegna COVID-19, að sögn Vageesh Jain frá University College.

COVID-19 er öndunarfærasýkning sem nýtt afbrigði kórónuveiru veldur. Í alvarlegustu tilfellum kemur sjúkdómurinn fram í mæði og andnauð. Algengustu einkennin eru hiti og hósti. Áætlað er að um 200.000 manns hafi smitast af sjúkdómnum um allan heim og að hún hafi dregið um 8.500 manns til dauða.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×