Erlent

Breskum skólum lokað og skammtað í verslunum

Kjartan Kjartansson skrifar
Johnson forsætisráðherra útilokaði ekki að grípa til samkomu- eða útgöngubanns sem önnur ríki hafa beitt gegn faraldrinum þegar hann kynnti lokanir á skólum í dag.
Johnson forsætisráðherra útilokaði ekki að grípa til samkomu- eða útgöngubanns sem önnur ríki hafa beitt gegn faraldrinum þegar hann kynnti lokanir á skólum í dag. Vísir/EPA

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, tilkynnti í dag að skólum á Englandi yrði lokað vegna kórónuveirufaraldursins eftir föstudaginn 20. mars. Áður hafði verið greint frá skólalokunum í Skotlandi, Wales og Norður-Írlandi. Stórmarkaðir hafa gripið til skammtana því fólk hættir ekki að hamstra vörur.

Johnson lýsti ákvörðuninni sem málamiðlun á fréttamannafundi í dag. Lokun skólanna gæti hjálpað til við hefta útbreiðslu veirunnar en hún gæti einnig haldið lykilstarfsfólki í samfélaginu frá vinnu. Því verða skólarnir enn látnir taka við börnum þeirra sem eru taldir vinna nauðsynleg störf, þar á meðal börnum heilbrigðisstarfsfólks, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Rúmlega hundrað manns hafa látist í faraldrinum á Bretlandi og á þriðja þúsund greinst smituð til þessa. Faraldurinn er byrjaður að valda miklum usla og hefur ríkisstjórn Johnson verið gagnrýnd fyrir að vera seinni til viðbragða en margar aðrar þjóðir.

Stærstu stórmarkaðir landsins hafa gripið til skammtana þar sem ekkert lát er á því að viðskiptavinir hamstri vörur. Reuters-fréttastofan segir að víða séu tómar hillur og langar raðir hafi myndast fyrir utan sumar verslanir. Yfirvöld og verslanirnar sjálfar hafa hvatt fólk til að hætta hamstri af tillitssemi við meðborgara sína.


Tengdar fréttir

Hvetja Breta til þess að hætta að hamstra

Verslunareigendur á Bretlandi líkja kaupæðinu vegna kórónuveirufaraldursins við jólaörtröðina. Svo rammt kveður að því að fólk hamstri nauðsynjar að stærstu verslunarkeðjur landsins hvetja fólk opinberlega til að hemja sig.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.