Enski boltinn

Leikmenn Chelsea íhuga 10% launalækkun

Sindri Sverrisson skrifar
Cesar Azpilicueta er fyrirliði Chelsea.
Cesar Azpilicueta er fyrirliði Chelsea. VÍSIR/EPA

Cesar Azpilicueta, fyrirliði Chelsea, hefur fyrir hönd leikmanna átt í viðræðum við forráðamenn félagsins um möguleikann á að leikmenn lækki tímabundið í launum vegna kórónuveirukrísunnar.

Þrátt fyrir að Chelsea sé eitt af stóru félögunum í ensku úrvalsdeildinni þá finnur félagið vel fyrir fjárhagslegum áhrifum kórónuveirufaraldursins. Samkvæmt Sky Sports er félagið í viðræðum við leikmenn um 10% launalækkun.

Enska úrvalsdeildin stakk upp á því að leikmenn deildarinnar tækju á sig 30% launalækkun en samtök leikmanna samþykktu það ekki. Aðeins leikmenn West Ham og Southampton hafa samþykkt launalækkun en Arsenal á einnig í viðræðum við sína leikmenn.

Óvíst er hvort og hvenær hægt verður að ljúka keppnistímabilinu í úrvalsdeildinni en hlé var gert 13. mars. Samkvæmt Sky gæti mótið í fyrsta lagi hafist að nýju 8. júní en mörg félög vilja að tryggt sé að því verði lokið 30. júní, vegna samninga við leikmenn og auglýsendur.


Tengdar fréttir

Telja hægt að klára úrvalsdeildina á 40 dögum

Forráðamenn félaganna í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta funduðu í gær og fóru yfir hvernig hægt yrði að klára tímabilið í deildinni. Þeir telja að hægt verði að klára tímabilið á 40 dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×