Innlent

Snarpur jarðskjálfti við Reykjanestá

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Skjálftinn varð á Reykjanestá.
Skjálftinn varð á Reykjanestá. Vísir/vilhelm

Jarðskjálfti að stærð 4,2 varð klukkan 10:32 við Reykjanestá, um þrjá kílómetra norðvestur af Gunnuhver, að því er fram kemur í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands. Skjálftinn fannst m.a. á Reykjanesi og höfuðborgarsvæðinu, til að mynda á Veðurstofunni sjálfri.

Bryndís Ýr Gísladóttir náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands segir í samtali við Vísi að nokkrir minni eftirskjálftar hafi fylgt í kjölfarið. Enn sé verið að vinna í því að mæla stærð þeirra. Engin merki eru um gosóróa.

Líkt og áður segir fannst skjálftinn víða á suðvesturhorninu, líkt og færslur á samfélagsmiðlum nú í morgun sýna. Bryndís segir að nokkrir tugir tilkynninga um skjálftann hafi þegar borist Veðurstofunni.

Niðurstöður jarðskorpumælinga við fjallið Þorbjörn sýna að þensla sem veldur landrisi er hafin að nýju. Landrisið er nú hægara en það sem mældist í lok janúar en virðist eiga upptök á svipuðum slóðum. Líklegasta skýringin er að kvikusöfnun hafi tekið sig upp að nýju.

Bryndís segir erfitt að segja hvort skjálftinn í dag tengist landrisinu við Þorbjörn. Skjálftinn hafi átt upptök sín á öðru svæði og þá mælist áframhaldandi skjálftavirkni við Þorbjörn.

Jarðskjálfti að stærð 5,2 varð klukkan 10:26 nærri Grindavík í síðustu viku. Líkt og í dag varð skjálftans víða vart á suðvesturhorninu og fannst meðal annars greinilega á höfuðborgarsvæðinu. Bryndís segir að upptök skjálftans í dag séu töluvert langt frá upptökum stóra skjálftans í síðustu viku.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Land rís á ný undir Þor­birni

Síðustu daga hefur þensla hafist á ný undir Þorbirni á Reykjanesi, á sömu slóðum og landrisið sem hófst í janúar.

Tveir stórir eftir­skjálftar mældust í kvöld

Tveir jarðskjálftar mældust um þrjá kílómetra austnorðaustur af Grindavík í kvöld. Sá fyrri mældist klukkan 18:40 og var 3,4 af stærð og sá seinni mældist klukkan 18:42 og var að stærð 3,3



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×