Innlent

Land rís á ný undir Þor­birni

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Frá Grindavík en fjallið Þorbjörn er í nágrenni bæjarins.
Frá Grindavík en fjallið Þorbjörn er í nágrenni bæjarins. vísir/vilhelm

Síðustu daga hefur þensla hafist á ný undir Þorbirni á Reykjanesi, á sömu slóðum og landrisið sem hófst í janúar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.

Jarðskorpumælingar veðurstofunnar leiða þetta í ljós en bæði hafa GPS mælingar á svæðinu staðfest þetta og gervihnattamælingar. Land hefur risið rétt innan við 20mm frá því í byrjun mars.

Vísindamenn á Veðurstofu Íslands, Jarðvísindastofnun Háskólans og Ísor funduðu í morgun og rýndu nýjustu mælingar og gögn. Þá kemur fram að landrisið nú sé hægara en það sem mældist í lok janúar og er talið líklegast að kvikusöfnun hafi tekið sig upp að nýju á sama stað. Þó eru engin merki um gosóróa.

„Landrisið núna virðist mjög hægt og mun hægara en í lok janúar. 20mm er í raun sáralítið landris og mjög erfitt að greina svo litla breytingu með þeirri tækni sem til staðar er. Oft þarf því að safna gögnum í einhverja daga til að fá það staðfest að landris hafi orðið eða eigi sér stað,“ segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, jarðeðlisfræðingur á Veðurstofu Íslands.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×