Innlent

Land rís á ný undir Þor­birni

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Frá Grindavík en fjallið Þorbjörn er í nágrenni bæjarins.
Frá Grindavík en fjallið Þorbjörn er í nágrenni bæjarins. vísir/vilhelm

Síðustu daga hefur þensla hafist á ný undir Þorbirni á Reykjanesi, á sömu slóðum og landrisið sem hófst í janúar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.

Jarðskorpumælingar veðurstofunnar leiða þetta í ljós en bæði hafa GPS mælingar á svæðinu staðfest þetta og gervihnattamælingar. Land hefur risið rétt innan við 20mm frá því í byrjun mars.

Vísindamenn á Veðurstofu Íslands, Jarðvísindastofnun Háskólans og Ísor funduðu í morgun og rýndu nýjustu mælingar og gögn. Þá kemur fram að landrisið nú sé hægara en það sem mældist í lok janúar og er talið líklegast að kvikusöfnun hafi tekið sig upp að nýju á sama stað. Þó eru engin merki um gosóróa.

„Landrisið núna virðist mjög hægt og mun hægara en í lok janúar. 20mm er í raun sáralítið landris og mjög erfitt að greina svo litla breytingu með þeirri tækni sem til staðar er. Oft þarf því að safna gögnum í einhverja daga til að fá það staðfest að landris hafi orðið eða eigi sér stað,“ segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, jarðeðlisfræðingur á Veðurstofu Íslands.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.