Erlent

TikTok faldi mynd­bönd frá not­endum sem voru taldir ljótir, fá­tækir eða fatlaðir

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Gögn frá TikTok sýna fram á að stjórnendur forritsins hafi bælt niður myndbönd einstaklinga sem taldir voru ljótir, fátækir eða fatlaðir.
Gögn frá TikTok sýna fram á að stjórnendur forritsins hafi bælt niður myndbönd einstaklinga sem taldir voru ljótir, fátækir eða fatlaðir. getty/Rafael Henrique

Stjórnendum forritsins TikTok var skipað að fela myndbönd sem birt voru á forritinu af notendum sem voru of ljótir, virtust fátækir eða fatlaðir. Þetta á fyrirtækið að hafa viljað til að myndböndin á forritinu væru hvetjandi fyrir notendur þess, samkvæmt trúnaðargögnum sem birt voru af fréttastofunni Intercept.

TikTok er snjallforrit þar sem notendur geta hlaðið upp myndböndum og sömuleiðis horf á myndbönd annarra notenda. Forritið hefur notið gríðarlegra vinsælda og með hundruð milljónir notenda.

Í gögnunum sem birt voru af Intercept er það útlistað ítarlega hvernig stjórnendum forritsins var fyrirskipað að velja myndbönd fyrir streymið „For you“ eða „fyrir þig,“ á íslensku. Þessi „fyrir þig“ dálkur er sá dálkur sem flestir notendur skruna í gegn um þegar þeir opna forritið. Því getur það skipt sköpum fyrir notendur ef myndbönd þeirra eru valin til að vera sýnd í „fyrir þig“ dálkinum en hingað til hefur það ekki verið þekkt hvað þurfi til þess að myndbönd séu valin til að vera sýnd í þessum dálki.

Stjórnendum TikTok var skipað að setja myndbönd ekki í Fyrir þig dálkinn ef þau uppfylltu ekki viss skilyrði. Þar á meðal máttu einstaklingar í myndböndum ekki vera með „óeðlilegt vaxtarlag“ (t.a.m. dvergvaxnir eða með ofvöxt), vera bústnir, í ofþyngd eða of grannir, vera ljótir í framan eða vera með ljót andlitslýti. Einstaklinga með þessa „útlitsgalla“ var æskilegt að fjarlægja af forritinu, segir í gögnunum, þar sem að „ef einstaklingurinn er ekki fallegur verður myndbandið ekki jafn aðlaðandi og þess vegna ekki þess virði að mæla með því við notendur.“

Þá kemur einnig fram að fjarlægja átti myndbönd ef fátækleg heimili sæjust í bakgrunni þar sem „þess konar umhverfi væri ekki jafn fínt og aðlaðandi.“

Talsmaður TikTok sagði að markmiðið hafi verið að koma í veg fyrir einelti á miðlinum. TikTok var gagnrýnt í desember vegna misheppnaðra tilrauna til að koma í veg fyrir einelti en það hafði verið gert á sama hátt: með því að fela myndbönd einstaklinga í viðkvæmri stöðu. Ástæðurnar sem eru útlistaðar í nýjustu gögnunum eru mun fjölbreyttari og er hvergi minnst á einelti í þeim gögnum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×