Fótbolti

Hamrén ánægður með ákvörðun UEFA: „Hlutir sem eru stærri og mikilvægari en fótbolti“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Erik Hamrén stefnir á að koma Íslandi á þriðja stórmótið í röð.
Erik Hamrén stefnir á að koma Íslandi á þriðja stórmótið í röð. vísir/vilhelm

Erik Hamrén, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, segist ánægður með ákvörðun Knattspyrnusambands Evrópu, UEFA, að færa EM fram á sumarið 2021 vegna kórónuveirufaraldursins.

„Ég bjóst við að EM yrði fært yfir á næsta ár. En ég vissi ekki hvenær umspilsleikirnir yrðu,“ sagði Hamrén í Sportinu í dag.

„Þetta er góð ákvörðun. Fótbolti er stærsta íþrótt í heiminum og svo mikilvægur fyrir svo marga en það eru hlutir sem eru stærri og mikilvægari en fótbolti.“

Ísland átti að mæta Rúmeníu í umspili um sæti á EM 26. mars næstkomandi. Ljóst er að sá leikur fer fram í júní þótt nákvæm dagsetningin liggi ekki enn fyrir. Hamrén kveðst bjartsýnn að umspilið geti farið fram í júní.

„Við Freyr [Alexandersson, aðstoðarlandsliðsþjálfari] erum byrjaðir að undirbúa leikinn. Ef hlutirnir breytast kemur það bara í ljós. Maður veit aldrei á tímum sem þessum, hlutirnir breytast ört,“ sagði Hamrén.

Íslenska liðinu hefur oftar en ekki gengið vel í leikjum í júní á síðustu árum. Í fyrra vann Ísland t.a.m. báða leiki sína í undankeppni EM, gegn Albaníu og Tyrklandi.

„Við vitum Ísland er gott í júní og vitum að leikmennirnir elska að spila í júní,“ sagði Hamrén.

Klippa: Sportið í dag: Hamrén sáttur með ákvörðun UEFA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×