Fótbolti

Guð­björg á förum frá Djurgården

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Guðbjörg Gunnarsdóttir er á förum frá Djurgården ef marka má færslu hennar á samfélagsmiðlum.
Guðbjörg Gunnarsdóttir er á förum frá Djurgården ef marka má færslu hennar á samfélagsmiðlum. Djurgården

Landsliðsmarkvörðurinn Guðbjörg Gunnarsdóttir er á förum frá sænska úrvalsdeildarfélaginu Djurgården. Guðbjörg tilkynnti þetta á samfélagsmiðlum sínum í dag.

„Allt tekur enda. Eftir níu tímabil og 169 leiki hef ég örugglega leikið minn síðasta leik fyrir Djurgården. Ég er mjög stolt af öllu sem ég hef áorkað fyrir félagið og vona innilega að ég hafi byggt upp eitthvað fyrir komandi kynslóðir. Ég hef hitt svo marga frábæra leikmenn, þjálfara og starfsmenn í gegnum tíma minn hjá félaginu ásamt því að hafa eignast vini fyrir líftíð,“ segir Guðbjörg á Twitter-síðu sinni.

„Ég óska liðinu alls hins besta á komandi tímabilum og að liðið fái þá leiðtoga og innviði sem félagið á skilið. Ég mun alltaf hafa vera stolt að hafa verið númer eitt í 169 leikjum og nú geta stuðningsmennirnir fengið treyju númer eitt að nýju. Ég og fjölskylda mín munum alltaf styðja Djurgården.“

Hin 35 ára gamla Guðbjörg á alls 64 landsleiki að baki en hefur ekki leikið með liðinu í dágóða stund þar sem hún eignaðist tvíbura á þessu ári. 

Hver leiðin liggur núna er óvíst en hún hefur leikið með Lilleström og Avaldsnes í Noregi, Potsdam í Þýskalandi ásamt FH og Val hér á landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×