Fótbolti

Segir titil­bar­áttuna „mjög flókna“ eftir jafn­tefli gær­dagsins

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ronald Koeman viðurkenndi að Barcelona ætti ekki mikla möguleika á spænska meistaratitlinum eftir 1-1 jafntefli gegn Eibar í gærkvöldi.
Ronald Koeman viðurkenndi að Barcelona ætti ekki mikla möguleika á spænska meistaratitlinum eftir 1-1 jafntefli gegn Eibar í gærkvöldi. EPA-EFE/SERGEY DOLZHENKO

Ronald Koeman, þjálfari Barcelona, segir titilbaráttu spænsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu „mjög flókna“ eftir 1-1 jafntefli sinna manna gegn Eibar í gærkvöldi. Börsungar eru nú sjö stigum á eftir toppliðum Atlético og Real Madrid.

Koeman vissi að tímabilið yrði strembið en það er ef til vill að reynast töluvert erfiðara, eða flóknara, en hann óraði fyrir.

„Ef ég er raunsær þá er titillinn „flókinn.“ Ekkert er ómögulegt en það er langt í toppliðin. Atlético virka á mig sem mjög gott og sterkt lið. Fá ekki á sig mikið af mörkum,“ sagði Hollendingurinn eftir leik.

„Við áttum skili að vinna. Við gerðum það sem við þurftum að gera. Þeir áttu aðeins eitt skot á markið. Við sköpuðum færi, klikkuðum á vítaspyrnu og gerðum mistök í vörninni,“ bætti Koeman við.

Lionel Messi var ekki með í gær vegna ökklameiðsla. Samningur hans rennur út næsta sumar sem þýðir að hann getur rætt við önnur félög strax í janúar.

„Ég vill ekki segja að okkur hafi skort reynslu. Við spiluðum fimm eða sex ungum leikmönnum í dag, við höfðum einnig reynslumikla leikmenn en einnig töluvert af meiðslum.“

„Við vorum án Leo sem skiptir sköpum. Okkur líður samt eins og við hefðum átt að vinna. Við sköpuðum mörg færi, klikkuðum á víti og gáfum mark. Einstaklingsmistök kostuðu okkur stig,“ sagði Koeman að lokum á blaðamannafundi eftir leik.

Næsti leikur Barcelona er á útivelli gegn Huesca þann 3. janúar næstkomandi. Er leikurinn sýndur beint á Stöð 2 Sport.


Spænski boltinn, La Liga, er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. La Liga er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×