Innlent

Sprautan gegn veirunni líklega stærsta jólagjöfin

Kristján Már Unnarsson skrifar
Þorleifur Hauksson bólusettur gegn covid-19. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra fylgist með þegar Brigitte Einarsson hjúkrunarfræðingur stingur nálinni í upphandlegg Þorleifs.
Þorleifur Hauksson bólusettur gegn covid-19. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra fylgist með þegar Brigitte Einarsson hjúkrunarfræðingur stingur nálinni í upphandlegg Þorleifs. Stöð 2/KMU.

Fyrsti Íslendingurinn utan heilbrigðisstétta, sem bólusettur var hér á landi, segir þetta líklega stærstu jólagjöfina. Það hafi ekkert verið vont - bara eins og að láta sprauta sig gegn flensu.

Í fréttum Stöðvar 2 mátti sjá þegar Þorleifur Hauksson, 63 ára íbúi hjúkrunarheimilisins Seljahlíðar í Breiðholti, hlaut þann heiður að verða fyrstur almennra borgara að fá sprautuna klukkan tíu í morgun að viðstöddum heilbrigðisráðherra og forstjóra heilsugæslu höfuðborgarsvæðis.

Margrét Árdís Ósvaldsdóttir, forstöðumaður Seljahlíðar, sagði þetta stóra stund og þetta væri mikil gjöf. Þorleifur hefði sjálfur sagt að þetta væri líklega stærsta jólagjöfin.

„Ertu spenntur?“ spurði hún.

„Mjög svo,“ svaraði Þorleifur.

Bólusetningin fór fram í matsal hjúkrunarheimilisins Seljahlíðar.Stöð 2/Arnar Halldórsson

Brigitte Einarsson, reyndasti hjúkrunarfræðingur Seljahlíðar, annaðist bólusetninguna og klöppuðu viðstaddir þegar búið var að sprauta Þorleif.

„Nú förum við að sjá í ljósið við enda ganganna, vonandi. En það er búið að færa miklar fórnir, eins og þið vitið, á hjúkrunarheimilum síðustu tíu mánuði.

Það hafa verið heimsóknartakmarkanir miklar. Íbúar farið lítið. Starfsfólkið nánast haldið sig í sóttkví til að geta sinnt störfum sínum,“ sagði Margrét.

-Þorleifur, var þetta nokkuð vont?

„Nei. Þetta var bara eins og að láta sprauta sig við flensu.“

Eftir að Þorleifur var búinn að fá sprautuna hélt hann úr matsalnum til íbúðar sinnar. Frammi á gangi biðu nítján aðrir hjúkrunaríbúar á Seljahlíð þess að verða næstir í röðinni til að fá bólusetningu.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:

Hér má sjá útsendingu Vísis frá athöfninni í morgun:


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×