Erlent

Halda skrá yfir þá sem neita að láta bólu­setja sig

Atli Ísleifsson skrifar
Salvador Illa leggur áherslu á að farið verði eftir öllum reglum um persónuvernd.
Salvador Illa leggur áherslu á að farið verði eftir öllum reglum um persónuvernd. Getty

Heilbrigðisyfirvöld á Spáni munu halda skrá yfir þá einstaklinga sem neita að láta bólusetja sig gegn kórónuveirunni. Skránni verður deilt með öðrum aðildarríkjum Evrópusambandsins.

Heilbrigðisráðherra landsins, Salvador Illa, greindi frá þessu í gær. Sagði hann að listinn yrði ekki aðgengilegur fyrir almenning eða vinnuveitendur. Illa sagði leiðina að því að sigra veiruna vera að „bólusetja okkur öll – því fleiri því betra“.

Spánn hefur farið einna verst Evrópuríkja út úr faraldrinum, þar sem skráð tilfelli eru nú um 1,9 milljónir og eru nú um 50 þúsund dauðsföll rakin til Covid-19 í landinu.

Bólusetning er hafin á Spáni þar sem notast er við bóluefni Pfizer-BioNTech, sem enn sem komið er eina bóluefnið sem hefur fengið markaðsleyfi innan Evrópusambandsins.

BBC hefur eftir Illa að hann leggi áherslu á að bólusetning sé ekki skylda í landinu. „Það sem verður gert er að haldin verður skrá, sem verður deilt með samstarfsríkjum okkar í Evrópu, af fólki sem hafi verið boðin bólusetning og hafa einfaldlega hafnað henni,“ segir Illa. Hann leggur áherslu á að farið verði eftir öllum reglum um persónuvernd.

Samkvæmt nýrri skoðanakönnun segjast 28 prósent Spánverja ekki ætla að láta bólusetja sig gegn Covid-19 og er hlutfallið umtalsvert lægra en í nóvember þegar um 47 prósent sögðust ætla að hafna bólusetningu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×