Erlent

Stormurinn Bella olli usla í Frakk­landi og Bret­landi

Atli Ísleifsson skrifar
Úrhellið leiddi til mikilla flóða, meðal annars í Worcester, suður af Birmingham.
Úrhellið leiddi til mikilla flóða, meðal annars í Worcester, suður af Birmingham. Getty

Flugsamgöngur röskuðust og þúsundir heimila voru án rafmagns þegar stormurinn Bella fór yfir suðurhluta Bretlands og norðurhluta Frakklands í gær. Bellu fylgdi bæði mikið úrhelli og sömuleiðis hvassviðri.

Bella gekk fyrst á land í Bretaníu og Normandí í Frakklandi þar sem hátt í tuttugu þúsund heimili voru án rafmagns um tíma. Eftir því sem stormurinn gekk yfir Frakkland misstu um 34 þúsund heimili í miðju og austurhluta landsins rafmagn. Á toppi Eiffelturnsins mældist vindur í hviðum rúmlega 40 metrar á sekúndu.

Bella hafði talsverð áhrif á flugsamgöngur þar sem seinkun varð á um þriðjungi fluga frá flugvellinum Charles de Gaulle í París í gær. Flugsamgöngur hafa nú komist í samt lag, að því er segir í tilkynningu frá flugmálayfirvöldum í Frakklandi.

Í Bretlandi flæddi inn í fjölda húsa í Northamptonskíri og Bedfordskíri í austurhluta landsins þar sem talsverðum fjölda hafði verið ráðlagt að yfirgefa heimili sín vegna flóðahættu.

Stomurinn hafði einnig nokkur áhrif á lestarsamgöngur í Wales þar sem tré höfðu fallið á teina.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×