Enski boltinn

Liverpool gæti „stolið“ efnilegum sóknarmanni frá Arsenal

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Folarin Balogun er efnilegur markaskorari en hefur enn ekki fengið að spila með Arsenal í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili.
Folarin Balogun er efnilegur markaskorari en hefur enn ekki fengið að spila með Arsenal í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili. Getty/ James Chance

Folarin Balogun er ungur og stórefnilegur framherji hjá Arsenal sem gæti endað hjá Liverpool þegar samningur hans rennur út.

Liverpool gæti þannig fengið Folarin Balogun á frjálsri sölu og ensku meistararnir hafa áhuga á þessum nítján ára strák samkvæmt heimildum The Athletic.

Liverpool er reyndar eitt af mörgum félögum sem hefur áhuga á stráknum.

Viðræður Arsenal og Folarin Balogun hafa ekki gengið vel og strákurinn er sagður vera farinn að horfa í kringum sig.

Balogun er enn það ungur að Liverpool má ekki hafa samband við leikmanninn fyrr en hann er runninn út á samningi í sumar.

Mikel Arteta vill halda Balogun og lét hann fá sinn fyrsta leik með aðalliðinu í október. Balogun hefur skorað tvö mörk í fimm leikjum en hefur ekki fengið að spila í ensku úrvalsdeildinni.

Balogun skoraði mörkin sín í leikjum á móti Molde og Dundalk í Evrópudeildinni.

Folarin Balogun er fæddur í New York borg í Bandaríkjunum. Hann hefur staðið sig mjög vel með yngri liðum Arsenal þar sem hann hefur skorað 25 mörk í 19 leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×