Fótbolti

Trúir því ekki að Salah vilji fara til Real eftir at­vikið með Ramos

Anton Ingi Leifsson skrifar
Atvikið umdeilda í Kiev árið 2018.
Atvikið umdeilda í Kiev árið 2018. VI Images/Getty

Fyrrum framherji Liverpool, John Aldridge, segist eiga erfitt með að skilja ef Mohamed Salah, framherji meistaranna, vilji fara til Real Madrid eftir atvikið með Sergio Ramos í úrslitaleik Meistaradeildarinnar árið 2018.

Að undanförnu hefur verið fjallað um meinta óánægju Salah hjá enska liðinu en hann er ekki sagður vilja útiloka skipti til Real Madrid eða Barcelona. Aldridge, sem lék 83 leiki með Liverpool, finnst það skrýtið ef Madrídarliðið heillar hann eftir að Salah fór af velli í úrslitaleik Meistaradeildarinnar árið 2018.

Það var einmitt gegn Real Madrid en eftir baráttu við fyrirliða Real, Sergio Ramos, þá féll Salah til jarðar og lenti á öxlinni. Hann þurfti síðar meir í aðgerð en Liverpool menn voru allt annað en sáttir við framgöngu Ramos.

„Persónulega, ef þetta hefði verið ég í úrslitaleiknum og hvernig Ramos fór með hann, þá hefði ég hatað Real Madrid eftir þetta atvik,“ sagði Aldridge í samtali við Liverpool Echo, staðarblaðið í Bítlaborginni.

„Þetta tilboð myndi ekki höfða til mín en ég myndi heldur ekki vilja fara frá Liverpool. Þetta eru einir af bestu framherjum í heiminum. Mane og Salah, svo þeir verða alltaf orðaðir við Real.“

„Þetta er undir Jurgen Klopp komið hvað hann vill. Þú verður að treysta stjóranum að stýra þessum aðstæðum eins og hann vill að þær fari en leikmennirnir eru það sterkir núna að ef þeir vilja fara, þá fara þeir.“

Salah byrjaði á bekknum um helgina er Liverpool vann 7-0 stórsigur á Crystal Palace. Hann kom hins vegar inn af bekknum og skoraði tvö mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×