Fótbolti

Féllu á lyfja­prófi en hafa spilað reglulega síðan

Anton Ingi Leifsson skrifar
Mohamad Camara er annar þeirra sem féll á lyfjaprófinu. Hann hefur þó ekki, hingað til, verið sendur í bann.
Mohamad Camara er annar þeirra sem féll á lyfjaprófinu. Hann hefur þó ekki, hingað til, verið sendur í bann. Johann Schwars/Getty

Mohamed Camara og Sekou Koita eru leikmenn RB Salzburg í Austurríki. Þeir eru sagðir hafa fallið á lyfjaprófi í síðasta mánuði en hafa hins vegar spilað reglulega síðan þá.

Camara og Koita koma báðir frá Malí og voru í landsliðsverkefni í síðasta mánuði. Eftir að hafa komið heim úr ferðinni með landsliðinu voru þeir teknir í lyfjapróf fyrir leik liðsins gegn Bayern Munchen í Meistaradeildinni.

Þar á prófið að hafa verið jákvætt. Þeir eru sagðir hafa fengið lyf vegna slappleika fyrir leik Malí og Namibíu þann 17. nóvember en lyfin eru sögð á bannlista UEFA.

Í yfirlýsingu Salzburg greindu þeir ekki frá því hvaða lyf þetta ku vera en þeir virðast ósáttir með þá meðferð sem Camara og Koita hafa fengið með landsliðinu.

„Við erum mjög stoltir af því þegar leikmenn okkar eru kallaðir upp í landsliðið. Í landsliðum er þó hægt að krefjast þess að læknateymið sé á landsliðsstigi og að þeir þekki reglurnar,“ sagði framkvæmdastjóri Salzburg, Stephan Reiter, í yfirlýsingu.

Camara og Koita hafa spilað reglulega fyrir Salzburg síðan þeir féllu á lyfjaprófinu en Salzburg hefur sagt við fjölmiðla að þeim hafi ekki borist nein melding frá UEFA að leikmennirnir væru komnir í bann. UEFA vildi ekki tjá sig um málið.

Salzburg er í efsta sæti austurríska boltans en liðið er einnig á leið í 32-liða úrslit Evrópudeildarinnar eftir að hafa lent í þriðja sæti A-riðils Meistaradeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×