Enski boltinn

„Spilamennska Leeds er eins og ef einhver væri að rappa á latínu á FM 957“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Luke Ayling, varnarmaður Leeds United, niðurlútur á Old Trafford í gær.
Luke Ayling, varnarmaður Leeds United, niðurlútur á Old Trafford í gær. getty/Nick Potts

Frammistaða Leeds United gegn Manchester United var til umræðu í Sportinu í dag. Strákarnir voru sammála um að leikstíll liðsins væri skemmtilegur þótt hann væri ekki alltaf árangursríkur.

Leeds tapaði 6-2 fyrir Manchester United á Old Trafford í gríðarlega fjörugum leik í ensku úrvalsdeildinni í gær. United hefði getað skorað mun fleiri mörk í leiknum, og Leeds reyndar líka.

Þrátt fyrir fjögurra marka tap fékk Leeds hrós fyrir spilamennskuna og djarft upplegg í leiknum í gær.

„Þeir eru að spila algjöran sjálfsmorðsfótbolta en það er gaman að horfa á hann,“ sagði Ríkharð Óskar Guðnason í Sportinu í dag. Kjartan Atli Kjartansson kom með skemmtilega líkingu varðandi leikstíl og upplegg Leeds.

„Þetta er eins og ef einhver væri að rappa á latínu á FM 957. Þetta var stórfurðulegur leikur,“ sagði Kjartan Atli.

Rikki velti því upp hvort Marcelo Bielsa, knattspyrnustjóri Leeds, myndi breyta leikstíl liðsins að einhverju leyti en Kjartan Atli og Henry Birgir Gunnarsson sögðu engar líkur á því.

„Ég held að hann sé búinn að gefa það út að það komi ekki til greina að breyta neinu,“ sagði Henry Birgir. „Hann er af gamla skólanum, þrjóskur og lætur þetta ganga.“

Leeds er í 14. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með sautján stig, sjö stigum frá fallsæti.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×