Innlent

Gert að selja íbúðina: Lögregla kölluð til 27 sinnum á níu mánuðum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Sögðust íbúar hafa orðið fyrir hótunum af hálfu gestanna og farið að óttast að nota sameignina.
Sögðust íbúar hafa orðið fyrir hótunum af hálfu gestanna og farið að óttast að nota sameignina.

Héraðsdómur Reykjavíkur kvað í gær upp þann dóm að konu bæri að flytja úr íbúð sinni innan mánaðar og selja hana innan þriggja, vegna grófra og ítrekaðra brota á skyldum sínum gagnvart öðrum íbúum í umræddu fjölbýlishúsi.

Konan flutti inn í íbúðina 15. september 2019 en sama dag barst tilkynning til lögreglu vegna íbúðarinnar. Eftir það var lögregla kölluð 27 sinnum að húsinu á níu mánaða tímabili, stundum af konunni en oftast af nágrönnum.

Samkvæmt dóminum var aðkoma lögreglu aðallega vegna samkvæmishávaða, láta frá hundum konunnar og vegna gesta hennar í húsinu. Þá hafi lögregla einnig verið kölluð til þegar gestir konunnar reyndu að komast inn í íbúðir annarra íbúa, þegar þeir höfðu í hótunum við nágranna konunnar og vegna líkamsárásar af hálfu gesta á einn íbúa.

Bar fyrir sig heilsuleysi, ofbeldissambandi og dóttur í neyslu

Húsfélagið greip fyrst til aðgerða 8. nóvember 2019 og sendi konunni bréf með aðvörun og áskorun. Bréfið var endursent húsfélaginu 20. desember og því óvíst um gildi þess.

Konan kannaðist hins vegar við að hafa fengið annað bréf sama efnis í janúar 2020 en bar því við að á þeim tíma hefði hún ekki haft heilsu til að gera sér grein fyrir innihaldi bréfsins. Sagðist hún mánuði síðar hafa farið í aðgerð vegna heilaæxlis.

Auk heilsufarslegra ástæðna sagði konan vandkvæði sín mega rekja til sambúðar hennar með ofbeldismanni, sem nú væri fluttur út, og hegðunar dóttur sinnar, sem væri í mikilli óreglu og neyslu.

Vísaði konan fyrir dómi meðal annars til þess að eftir að dóttir hennar hefði farið erlendis í mars 2020 hefði útköllum lögreglu fækkað verulega. Þá hefði þeim enn fækkað eftir að konan losnaði úr ofbeldissambandinu í júní 2020.

Íbúar sögðust óttast að nota sameignina

Í niðurstöðu dómsins segir hins vegar að konan hefði ekki lagt fram gögn til að færa sönnur á fullyrðingar um heilsuleysi. Eins lægju engin gögn fyrir um dóttur konunnar. Þá hefði hún haldið umrædda hunda án samþykkis annarra íbúa. 

Enda þótt hún hefði sjálf óskað eftir aðstoð lögreglu nokkrum sinnum þá væri ekki hægt að líta svo á að eftir stæðu svo fá tilvik eða léttvæg að ótímabært hefði verið að senda henni erindi.

Er meðal annars vísað til vitnisburða annarra íbúa um veislur sem entust fram að hádegi daginn eftir að þær hófust. Að fólk í annarlegu ástandi hefði hangið í sameigninni og í þvottahúsinu. Að mikið hefði verið um öskur og rifrildi í íbúð stefndu, auk hávaða frá hundum.

Sögðust íbúar hafa orðið fyrir hótunum af hálfu gestanna og farið að óttast að nota sameignina.

Konunni var sem fyrr segir gert að flytja út úr íbúð sinni og selja hana en auk þess að greiða húsfélaginu 1,1 milljón í málskostnað.

Dómur Héraðsdóms ReykjavíkurAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.