Enski boltinn

Solskjær segir Henderson hafa staðist prófið með glæsibrag þrátt fyrir mistökin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dean Henderson byrjaði ekki vel á sínum gamla heimavelli í gær.
Dean Henderson byrjaði ekki vel á sínum gamla heimavelli í gær. getty/Peter Powell

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, hrósaði markverðinum Dean Henderson eftir sigurinn á Sheffield United, 2-3, þrátt fyrir að mistök hans í fyrra marki heimamanna.

Henderson var í annað sinn í byrjunarliði United í ensku úrvalsdeildinni í gær, gegn liðinu sem hann lék með sem lánsmaður um tveggja ára skeið (2018-20).

Leikurinn byrjaði ekki vel fyrir Henderson á hans gamla heimavelli því eftir aðeins fimm mínútur kom David McGoldrick Sheffield United yfir eftir slæm mistök markvarðarins.

Þau komu þó ekki að sök og United vann 2-3 sigur. Liðið hefur unnið alla sex útileiki sína í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu þrátt fyrir að lenda undir í þeim öllum.

„Hann var alltof lengi með boltann í fyrsta markinu en varði svo frábærlega undir lokin,“ sagði Solskjær er hann var spurður út í frammistöðu Hendersons eftir leikinn í gær.

„Hann er alltaf að læra. Hann hefur eflaust hlakkað til að koma aftur hingað og spila. Að gera þessi mistök og spila svo eins og hann gerði sýnir mikinn karakter. Hann stóðst prófið með glæsibrag.“

Með sigrinum í gær komst United upp í 6. sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Strákarnir hans Solskjærs eiga leik til góða á fimm efstu liðin. Næsti leikur United er gegn Leeds United á Old Trafford á sunnudaginn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×