Innlent

Fjórum veitingastöðum veitt tiltal vegna sóttvarna

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
visir-img
Vísir/Vilhelm

Lögregla heimsótti á annan tug veitingahúsa í gærkvöldi í eftirliti með sóttvörnum vegna Covid-19 og voru flestir með allt til fyrirmyndar. Veitingamenn fjögurra staða fengu tiltal þar sem bent var á hvað mætti gera betur.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu.

Tilkynnt var um þjófnað í verslunum í hverfum 108 og 101 í nótt. Tveir menn eru í haldi lögreglu vegna innbrotsins í miðborginni en þeir náðust í annarlegu ástandi og með skartgripi sem þeir höfðu haft með sér á brott.

Þá var tilkynnt um eignaspjöll í báðum hverfum. Í miðbænum var rúða brotin í veitingahúsi en í 108 var einstaklingur fluttur á bráðadeild eftir að hafa skorið sig á höndum við að brjóta rúðu í fyrirtæki.

Ofurölvi maður handtekinn í miðborginni þar sem hann var með hávaða og ónæði. Var hann vistaður í fangageymslum sökum ástands. Og ofurölvi kona var handtekin vegna ónæðis í hverfi 105 en hún var vistuð í fangageymslum þar sem hún átti ekki í önnur hús að venda.

Tveir voru stöðvaðir á höfuðborgarsvæðinu í gær grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna.

Þá voru afskipti höfð af manni á heimili hans vegna framleiðslu áfengis. Gekkst hann við brotinu og sýndi lögreglu tækin og framleiðsluna. Búnaður og ætlað áfengi haldlagt.

Tilkynnt var um eignaspjöll í fjölbýlishúsi í hverfi 109 en búið var að brjóta upp alla póstkassana í anddyri hússins. Einnig var tilkynnt um innbrot í hverfi 113, þar sem brotist var inn í bílageymslur, bifreið skemmd og hlutum stolið. Málið er í rannsókn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×