Enski boltinn

Pirraður Gündogan segir leikmenn City manneskjur en ekki vélar

Anton Ingi Leifsson skrifar
Gundögan og samherjar fyrir leikinn gegn WBA í gær.
Gundögan og samherjar fyrir leikinn gegn WBA í gær. Matt McNulty/Getty

İlkay Gündogan, Þjóðverjinn í herbúðum Manchester City, kom sínum mönnum til varnar eftir að City mistókst að vinna nýliða WBA á heimavelli. Lokatölur 1-1.

City komst yfir með marki Gündogan í fyrri hálfleik og flestir héldu þá að þeir myndu ganga á lagið. Allt kom fyrir ekki, WBA jafnaði fyrir lok fyrri hálfleiks og City náði ekki að tryggja sigurinn.

Gündogan kom City til varnar eftir leikinn í gær og sagði að leikmenn City væru manneskjur en ekki vélmenni. Þeir gerðu sín mistök.

„Við erum manneskjur, ekki vélmenni og lendum einnig í vandræðum,“ sagði Gundögan í samtali við BBC Sport eftir leikinn í gærkvöldi.

„Við vitum að við hefðum getað spilað betur en við áttum meira skilið. Við fengum færin. Ég veit ekki hvað maður á að segja. Þetta eru mikil vonbrigði og við verðum að vinna þessa leiki.“

„Það er nánast ómögulegt að eitt lið sé á toppnum og vinni alla leikina í þessari leikjadagskrá sem er framundna. Öll lið í Evrópu eru að berjast við að vinna marga leiki í röð en við verðum að taka ábyrgð og vinna þessa leiki, sér í lagi á heimavelli.“

„Þetta verður langt tímabil en ef við ætlum að vera uppi við toppinn þá verðum við að vinna hérna og við gerðum það ekki. Við sköpuðum færi, stýrðum leiknum en þú verður að vinna. Þessi leikur snýst um úrslit,“ bætti sá þýski við.


Tengdar fréttir

City tapaði stigum gegn nýliðunum á heimavelli

West Brom, sem hefur aðeins unnið einn leik í ensku úrvalsdeildinni í vetur, sótti stig á Etihad leikvanginn í kvöld er liðið gerði 1-1 jafntefli við Manchester City.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×