Innlent

Dæmdur fyrir 200 þúsund barna­kláms­myndir eftir brot gegn fötluðum skjól­stæðingi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Dómurinn féll í Héraðsdómi Reykjavíkur 9. desember.
Dómurinn féll í Héraðsdómi Reykjavíkur 9. desember. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í síðustu viku karlmann í sex mánaða fangelsi fyrir vörslu á miklu magni barnaníðsefnis. Maðurinn var í júní á þessu ári dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn alvarlega fötluðum skjólstæðingi sínum.

Maðurinn var ákærður fyrir að hafa í ágúst 2018 haft í vörslu sinni 207 kvikmyndir og næstum 200 þúsund ljósmyndir sem sýndu börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt. Maðurinn játaði skýlaust brot sitt fyrir dómi.

Hann var að endingu dæmdur í sex mánaða fangelsi og gert að sæta upptöku á borðtölvu, fartölvu og tveimur flökkurum. Þá greiði hann málsvarnarlaun verjanda síns, tæpa hálfa milljón króna. Dómurinn er hegningarauki við dóminn sem maðurinn fékk í júní síðastliðnum. 

Þar var maðurinn dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn skjólstæðingi sínum, ungum manni með alvarlega og líkamlega fötlun. Manninum var gefið að sök að hafa fróað skjólstæðingi sínum í þrígang árið 2016 en bar því við að þolandinn hefði sjálfur haft frumkvæði að athæfinu.

Rakið er í dómnum frá því í sumar að maðurinn hefði kynnst piltinum árið 2008 eða 2009 og verið kennari hans í um átta ár, auk þess sem hann hefði sinnt honum á frístundaheimili eftir skóla. 

Taldi dómurinn sannað að skjólstæðingurinn glímdi við mjög alvarlega fötlun að stríða, bæði líkamlega og vegna þroskaskerðingar. Hann hefði mjög takmarkaða getu til að tjá sig um vilja sinn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×