Reuters segir frá þessu og vísar í rússneska ríkisfjölmiðilinn RIA Novosti. „Hvað mig varðar þá er ég reiðubúinn til samstarfs og samskipta við þig,“ á Pútín að hafa sagt við Biden.
RIA segir frá því að Pútín hafi einnig óskað Biden til hamingju með sigurinn og að hann voni að Bandaríkin og Rússland geti átt gott samstarf, þrátt fyrir að vera ólík.
Nokkra athygli vakti að Pútín óskaði Biden ekki til hamingju með sigurinn fljótlega eftir 7. nóvember þegar ljóst var að Biden hefði borið sigur úr býtum, líkt og raunin var með mikinn fjölda annarra þjóðleiðtoga.
Hamingjuóskirnar nú koma eftir fund bandarísku kjörmannanna sem í gær völdu Biden formlega til að gegna forsetaembættinu næstu fjögur árin. Biden fékk atkvæði 306 kjörmanna, en Trump 232.
Biden tekur við forsetaembættinu í Bandaríkjunum þann 20. janúar næstkomandi.