Erlent

Ekki fleiri and­lát í nóvember­mánuði í Sví­þjóð síðan í spænsku veikinni

Atli Ísleifsson skrifar
Frá Stortorget í Gamla Stan í Stokkhólmi. Í morgun var greint frá því að 160 til viðbótar hafi látist af völdum sjúkdómsins í Svíþjóð.
Frá Stortorget í Gamla Stan í Stokkhólmi. Í morgun var greint frá því að 160 til viðbótar hafi látist af völdum sjúkdómsins í Svíþjóð. Getty

Alls létust 8.088 manns í Svíþjóð í nýliðnum nóvember og hafa ekki svo margir látist í nóvembermánuði síðan 1918 eða þegar spænska veikin herjaði á íbúa álfunnar.

Sænskir fjölmiðlar greina frá þessu og vísa í tölur frá sænsku Hagstofunni. Þar segir að á árunum 2015 til 2019 létust að meðaltali 7.383 í umræddum mánuði. Andlát í nóvember er því um tíu prósent fleiri en meðaltal síðustu ára .

Kórónuveiran, sem veldur sjúkdómnum Covid-19, hefur verið mjög útbreidd í Svíþjóð, en alls hafa 320 þúsund manns greinst með hana í landinu frá upphafi faraldursins. Dauðsföll rakin til Covid-19 eru nú 7.514, en í morgun var greint frá því að 160 til viðbótar hafi látist af völdum sjúkdómsins.

Mesti fjöldinn síðan 1918

„Þetta er mesti fjöldi andláta sem hefur verið skráður í nóvembermánuði síðan 1918, sem var árið sem spænska veikin braust út,“ segir Tomas Johansson, mannfjöldatölfræðingur hjá sænsku hagstofunni.

Í nóvember 1918 létust 16.600 manns. Hæsti fjöldinn á þessari öld, fram til ársins í ár, var árið 2002 þegar 7.720 andlát voru skráð.

Johansson segir fjölgunina nú fyrst og fremst mega rekja til elsta aldurshópsins – 65 ára og eldri. Andlát í aldurshópnum 64 ára og yngri í nóvember 2020 eru hins vegar nokkuð færri en meðaltal síðustu fimm ára segir til um.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×