Fótbolti

Hollenskur lands­liðs­maður hand­tekinn fyrir að stinga fjöl­skyldu­með­lim

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Promes í leik gegn Liverpool nýverið. 
Promes í leik gegn Liverpool nýverið.  Rico BrouwerGetty Images

Hollenski landsliðsmaðurinn Quincy Promes hefur verið handtekinn fyrir að stinga fjölskyldumeðlim með hníf.

Hollenski miðillinn De Telegraf greinir frá en þar segir að hollenska lögreglan hafi staðfest handtöku á 28 ára karlmanni frá Amsterdam. Um er að ræða Quincy Promes, landsliðsmann Hollands og leikmann Ajax í hollensku úrvalsdeildinni.

Málið snýr að ættarmóti sem haldið var í Abcoude, úthverfi Amsterdam-borgar í haust. Þar mun Promes hafa lent í áflogum við skyldmenni sitt sem endaði með því að fjölskyldumeðlimurinn var stunginn með hníf og hlaut alvarleg meiðsli. Þá ku sá hinn sami einnig hafa meiðst á hné í áflogunum.

Talið er að ættmenni Promes hafi séð til þess að ekki fór verr.

Ekki er víst af hverju lögreglan handtók Promes núna en málið hefur verið á borði hennar undanfarinn mánuð. Promes verður haldið í þrjá daga en hægt er að framlengja gæsluvarhaldið.

Promes hefur leikið 46 leiki fyrir landslið Hollands og leikið með Twente, Spartak Moskvu, Sevilla og Ajax á ferli sínum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.